20.11.2011 20:42
Námskeið fer vel af stað.
9. September,
Endursmíðin á bátunum hefur gengið vonum framar, þátttakendur á námskeiðinu hafa sýnt þessu mikinn áhuga og eru fljótir að tileinka sér þau vinnubrögð sem fylgja endursmíðum á þessum gömlu bátum. Frá því á mánudag er komið nýtt afturstefni í Baldur ásamt kjalsíðum og þriðja umfar að detta í. Björkin er líka kominn með nýjan efrihluta afturstefnis og byrjað að byrða hana upp að nýju. Myndaalbúm af námskeiðinu verður sett hérna á síðuna hjá okkur á helginni.
20.11.2011 20:24
Viðhald og endursmíði gamalla trébáta.
Verklegt námskeið.
16. August, 2010
Námskeið um viðhald og endursmíði gamalla trébáta verður haldið á Reykhólum dagana 6 til 18 sept næstkomandi. Á námskeiðinu verður farið í viðgerð á 6,5m súðbyrtum vélbát. Áætlað er að námskeiðinu verði skipt upp í fjóra hluta á námskeiðstímanum og verður þannig.
6 til 8 sept. Skipt um afturstefni.
9 til 11 sept. Skipt um í byrðing.
12 til 14 sept. Höggvin bönd.
15 til 18 sept. Skipt um borðstokka.
Einnig verður fjallað um segl og reiðabúnað með gamla laginu.
Með því að skipta námskeiðinu upp í þessa fjóra hluta viljum við gefa þáttakendum kost á að velja sér þá verkhluta sem að þeir telja að nýtist sér best. Þátttakendur geta því valið einn verklið, komið síðan aftur í annan verklið ef þeir vilja. Aðeins verður greitt fyrir viðveru og getur þátttakandi því stýrt því hver kostnaðurinn verður.
Hver klukkustund kostar 1000 kr en þó að hámarki 8000 kr dagurinn.
Áhugasamir sem vilja smíða með okkur allan námskeiðstímann greiða fast verð. 60.000 kr.
Þátttakendur sjá sér fyrir fæði og gistingu á námskeiðstímanum.
Möguleikar á gistingu eru t.d tjaldstæði fyrir fellihýsi og hjólhýsi, gistiheimilið Álftaland, Bjarkarlundur og einnig er bændagisting á svæðinu.
Skráning á [email protected] Vinsamlegast skráið nafn, heimilisfang og síma og þann hluta námskeiðsins sem þið kjósið að nýta ykkur.
20.11.2011 20:11
Bátadagar 2.-4. júlí 2010
8. Juní, 2010
Þá er aftur komið að bátadögum. Áætlað er að fara frá Stað kl. 9 .00 á laugardagsmorgun þann 3. júlí. Æskilegt er að formenn báta komi með báta sýna föstudaginn 2. júlí. Siglt verður út í Sviðnur stoppað þar í einn til tvo tíma þaðan er siglt með fram Skáleyjalöndum og Látralöndum norður úr Breiðasundi milli Sprókseyja og Véleyjar sunnan við Svefneyjaklofning og til Flateyjar .
Bátarnir safnast saman við Hrólfsklett og fara þaðan í röð út Hafnarsund út að eyjarenda í Flatey og til baka inn Hafnarsund til að fólk í Flatey geti fylgst með, vonandi verður góður tími í Flatey til að skoða eyna eða leika sér á bátunum.
Farið verður frá Flatey kl. 11 á sunnudagsmorgun til Hergilseyjar og þaðan sem leið liggur meðfram Hvallátrum og Skáleyjum að Stað.
Bátseigendur eða áhöfn þarf að sjá um að björgunarvesti og annan öryggisbúnaður sé í bátnum, koma með nesti fyrir helgina og annað sem hún telur sig þurfa ásamt tjaldi því gist verður á tjaldsvæði í Flatey
Í nokkrum bátum verða menn sem rata þá leið sem við förum , mikilvægt er að formenn sem lítið rata fylgi hinum og fari í kjölfarið, ekki til hliðar við þá því hluti af leiðinni er um þröng sund, kannski tvær til þrjár bátsbreiddir.
Kortinn hér fyrir neðan eru af siglingarleiðum helgarinnar, rauða línan er sigling laugardagsins, en græna línan er sigling sunnudags. Við völdum að setja siglingarleiðina á þrjú kort til að sína leiðirnar betur.
Vegna öryggismála er nauðsynlegt að þátttakendur skrái sig í ferðina. Skráning fer fram á á netpósti [email protected]
Koma þarf fram nafn báts, nafn formanns og fjöldi farþega í bát. Vinsamlegast skráið ykkur tímanlega. Hlökkum til að sjá ykkur.
18.11.2011 14:10
Skinnklæðin vekja athygli.
4. September, 2009
Áhugamannahópur sem stendur að stofnun bátasafns Breiðarfjarðar hefur ekki eingöngu með handverk bátasmíða fyrri tíma að gera heldur lagt sig við að læra seglagerð, eldsmíði og sjóklæðagerð. Mikil vinna hefur verið lögð í að afla heimilda um það handbragð sem tilheyrði gerð þessarra hluta.
Þau hafa vakið mikla athygli skinnklæðin góðu sem Eggert Björnsson
félagi okkar frá Patreksfirði saumaði. Um er að ræða eftirlíkingu af
fyrstu gerð skinnklæða sem notuð voru sem sjófatnaður. Skinnklæðin
hafa alltaf átt hug Eggerts frá því að hann var ungur og teiknaði hann
þau gjarnan. Það tók hann um 3 ár af heimildavinnu áður en
saumaskapurinn gat hafist og fóru 12 lambsskinn í klæðin.
Skinnklæðin hafa verið fengin að láni á nokkrar sýningar í sumar þ.m.t. á sýningu hjá Alliance Française í Reykjavík um síðustu mánaðarmót. Hún er um veru franskra sjómanna við Íslandsstrendur á skútuöldinni og sýn Íslendinga á þessum framandi mönnum. Myndirnar með fréttinni eru teknar þaðan. Um 70 gestir mættu á opnun sýningunar þar á meðal Vigdís Finnbogadóttir og þóttu skinnklæðin afar áhugaverð. Það var María Óskarsdóttir Patreksfirði sem fékk klæðin lánuð á sýninguna og að hennar sögn sló þögn á hópinn þegar Páll Óskarsson gekk inn í salinn í klæðunum, fólkið vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, svo mikil var undrun þess. Það vissi ekki hvernig það átti að bregðast við. Allt í einu var kominn þarna sjómaður frá liðinni öld, á meðal þeirra; í sjóskóm og með tvíþumla ullarvettlinga á höndunum. Sjóhatturinn á sínum stað
og í hendinni bar hann gamlan fiskigogg. Þegar hópurinn fór aðeins að jafna sig vildu margir, sérstaklega þó konurnar, fá að koma við búninginn. Voru þau skoðuð í bak og fyrir af virtum gestum sem höfðu sumir talsvert vit á saumaskap. Þar á meðal var Adda Geirsdóttir fyrrverandi skólastjórafrú Héraðsskólans á Laugarvatni. Hún er lærð húsmæðra- og handavinnukennari og hefur þaulæft auga fyrir vönduðu handbragði. Hún fékk að skoða búninginn nákvæmlega, ekki aðeins á réttunni, heldur rönguna líka. Því eins og þeir vita sem vandvirkir eru og kunnugir saumaskap, þá er ekki nóg að allt sýnist slétt og fellt að utan. Bakhliðin eða rangan þarf að standast prófið líka! Hún dáðist mjög af handverkinu og því hversu vel búningurinn var unninn.
Fleiri aðilar hafa sýnt klæðunum áhuga og má nefna Ósvör sjóminjasafnið í Bolungarvík, líklega með það í huga að sauma einn slíkann. Þeir höfðu samband við Eggert á dögunum og fengu helstu upplýsingar um sjóklæðagerðina. Við óskum þeim góðs gengis með saumaskapinn.
18.11.2011 14:08
Heimsókn til Siglufjarðar.
4. August, 2009
Á dögunum heimsóttum við félagarnir Hafliði, Eggert og Hjalti Síldarminjasafnið á Siglufirði þar sem síðari hluti samstarfsverkefnis Síldaminjasafnsins og Bátaverndarmiðstöðvar norður Noregs í Gradanger fer fram. Verkefnið byrjaði þann 6. júlí s.l. þegar Björn Lillevoll og Skúli Thoroddsen hófu smíði á bát með eyfirsku bátalagi og fer smíðin fram í gamla slippnum á Siglufirði. Það er ekki á hverjum degi sem það gefst tækifæri á því að vera viðstaddur smíðar af þessu tagi og því gerðum við okkur ferð norður og fengum að höggva niður í nokkur bönd í bátinn. Þess má geta að Björn Lillevoll tók þátt í bátadögum með okkur og hafði gaman af, hann nýtti tækifærið til að skoða breiðfirsku bátana vel og leist mjög vel á.
Fyrri hlut þessa verkefnis fór fram í Gradanger síðast liðið haust en þá fóru fulltrúar frá Síldaminjasafninu í heimsókn í Bátaverndarmistöð norður Noregs til að kynnast og taka þátt í smíði á norskum feræringi undir leiðsögn Björn Lillevoll. Undirrituðum var boðið að vera með í för til að kynnast starfsemi bátavendarmiðstöðvarinnar.
Hér fyrir neðan er smá fróðleiksmoli um eyfirskt bátalag, og sést þar hversu vel er við hæfi að smíðin á Siglufirði sé samstarfsverkefni á milli Íslendinga og Norðmanna.
Í frásögn Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings í Andvara árið 1900 getur hann þess að bátar með Eyjarfjarðarlagi sé nokkurs konar samruni að eyfirsku og norsku handbragði.
Orðrétt segir Bjarni "Bátar hér eru all flestir með Eyjarfjarðarlaginu sem er sameining af lagi hinna gömlu Eyjarfjarðarbáta og norsku sjægte lagi, þeir eru góðir í sjó að leggja og vel lagaðir bæði til róðurs og siglinga. Þeir eru að smíði og frágangi vandaðri og smekklegri en aðrir íslenskir bátar er ég hef séð".
Algengast var að á Eyjarfjarðarbátum væri fokka og ýmist spritsegl eða gaffalsegl. Helsta einkenni eyfirsku bátanna er að böndin koma upp með þóftum framan til en ekki undir þær miðjar eins og algengast var á öðrum bátategundum hér við land.
Kveðja Hjalti Hafþórsson
18.11.2011 14:07
Bátadagar 2009 ákaflega vel heppnaðir.
14. July, 2009
Um síðust helgi fóru fram Bátadagar 2009 á Reykhólum. Það er áhugamannahópur um stofnun Bátasafns Breiðarfjarðar sem stendur að Bátadögum og var fjölmenn þátttaka í ár. Hópur yfir 100 manns hélt úr höfn frá Stað á um 20 trébátum. Siglt var í blíðskapar veðri um Breiðafjörðinn eins og dagskrá sagði til um. Hópurinn fékk frábærar móttökur í eyjunum og slegin var upp matarveisla í Skáleyjum að hætti þeirra og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Áhugamannahópurinn vill þakka öllum þátttakendum fyrir frábær viðkynni, yndislega siglingu og vonast til að sjá sem flesta aftur að ári.
Á myndasíðu eru myndir úr ferðinni.
Með bestu kveðju,
Hjalti Hafþórsson Hvalfjarðarsveit.
18.11.2011 14:03
Bátadagar 2009
6. March, 2009
Reykhólamenn eru búnir að ákveða tímasetningu Bátadaganna á nýja árinu. Að þessu sinni verða þeir helgina 11. og 12. júlí. Farið verður á ennþá óvissum fjölda súðbyrðinga frá höfninni á Stað á Reykjanesi á laugardagsmorgni og komið við í eyjum á leiðinni til Flateyjar, þar sem gist verður um nóttina. Að Bátadögum stendur sami hópurinn sem undanfarin ár hefur unnið að uppbyggingu Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum. Vonast er til þess að sem flestir sem hafa yfir súðbyrtum sjófærum trébátum að ráða, gömlum sem nýjum, komi og verði með í ferðinni.
Bátadagar ferðaáætlun 11. og 12. júlí 2009
Farið verður frá Stað kl. 10 að morgni 11. júlí. Siglt verður út flóann meðfram Skákaskeri og Leiðarskeri í lendingu í Skáleyjum. Þaðan verður farið út Langeyjarsund, Brandssund meðfram Látratöngum og Lyklaskeri út á Bæjarsund í lendingu í Hvallátrum. Farið verður þaðan út Bæjarsund, Lokaskerssund eða Leiðarsund meðfram Sprókseyjum og Klofningi í lendingu í Svefneyjum, þaðan verður farið út Flateyjarsund og Hafnarsund til Flateyjar. Þeir sem geta látið báta sína fjara þurfa að vera komnir í Grýluvog milli kl. 9 og 10 um kvöldið, þar verða bátarnir geymdir um nóttina.
sunnudagur 12. júlí
Kl. 10 (um flæðina) á sunnudagsmorgun þarf að taka bátana úr Grýluvogi. Farið verðir af stað úr Flatey kl. 13 sem leið liggur um Eyjarendasund suður fyrir Svefneyjar í Sviðnur og farið þaðan um Sviðnasund meðfram Skutlaskerjum að Stað.
Stoppað verður á hverjum stað í einn eða tvo klukkutíma, nema í Flatey þar sem gist verður. Rétt er að taka fram að sjávarföll ráða meira um ferðatilhögun en klukkan.
18.11.2011 14:01
Velkomin á vefinn okkar
6. April, 2008
Þessi vefur hefur opnað augu sín á veraldarvefnum og fær von bráðar uppeldi sitt. Ykkur er velkomið að fylgjast með uppvaxtarárunum.