Bátasmíði.is

Færslur: 2015 September

29.09.2015 09:01

Sindri afhentur Bátasafni Breiðafjarðar



Sindri afhentur Bátasafni Breiðafjarðar til eignar og varðveislu.

Sindri var smíðaður árið 1936 af Valdimar Ólafssyni í Hvallátrum fyrir Jón Þórðarson og Snæbjörn Jónsson á Stað á Reykjanesi. Á þessum tíma var tvíbýli á Stað en síðar(1949) byggði Jón nýbýlið Árbæ .

Sindri er smíðaður úr eik og furu og skráður 2,5 brl. Var upphaflega með 5 ha Skandia vél, árið 1946 var sett í bátinn 8 ha. Skandia vél, 1983 var sett í bátinn 8 ha Sabb vél og 1995 10 ha Sabb vél sem er í bátnum í dag.

Sindri var notaður af Staðar og Árbæjar bændum í áratugi við hlunnindanytjar og flutninga á vörum og fólki.

Sindri hefur verið geymdur í uppsátri á Vesturnesi við höfnina á Stað.

Árið 1962 kaupir Guðmundur Theódórsson á Laugalandi við Þorskafjörð bátinn og notar hann við hlunnindanytjar o.fl.  Árið 1990 gerði Guðmundur bátinn upp og hefur síðan haldið honum mjög vel við.

Á Bátadögum 2015 sigldi Guðmundur ásamt gestum á Sindra í hópi báta í blíðu veðri. Að því loknu afhenti Guðmundur Bátasafninu Sindra til eignar og varðveislu.

Sindri var hafður til sýnis á Báta- og hlunnindasýningunn fram á haust en nú hefur verið gengið frá honum til vetrardvalar í naustinu þar sem hann hefur verið geymdur undanfarin 80 ár.

Fleiri myndir af Sindra eru í myndaalbúmum.

20.09.2015 12:00

Bátavélasafn Þórhalls Matthíassonar verður hluti af Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum



Þórhallur Matthíasson sem er Vestfirðingur að uppruna, alinn upp í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi, og búsettur á Akureyri hefur safnað og gert upp bátavélar í tugir ára. Árið 2007 opnaði Þórhallur sýningu á safninu á Akureyri.

Að undanförnu hefur Þórhallur verið að leita að framtíðarstað fyrir safn sitt. Fyrir stuttu komust á viðræður forsvarsmanna Bátasafns Breiðafjarðar og Þórhalls um hvort möguleiki væri á að safn Þórhalls myndi geta átt sér framtíðarstað á Reykhólum.

Eftir að við höfðum ráðfært okkur við félaga okkar hjá Báta- og hlunnindasýningunni ehf. (BogH) var ákveðið að þiggja þessa rausnarlegu gjöf Þórhalls og búa henni veglegan stað í kjallara húsnæðis BogH.

Safnið var síðan í framhaldinu flutt frá Akureyri í vikunni (16-17 sept.) til Reykhóla og þurfti tvo stóra flutningabíla undir safnið sem telur um 150 vélar og annan búnað sem tengist vélum í bátum. Margar vélanna eru gangfærar. Safninu var komið fyrir til bráðabirgða innan um báta og aðra sýningarmuni í BogH.   

Veturinn verður notaður til að undirbúa húsnæðið, leggja í gólf, mála og koma rafmagni og öðru í gott horf.

Næst vor verður sýningin svo sett upp í samvinnu við Þórhall og verður hún með hans nafni. Þórhallur hefur haldið skrá yfir alla munina og er saga þeirra flestar einnig aðgengileg.

Það má því segja að næst vor samanstandi  BogH í raun af 3 sýningum;  Bátasafn (súðbyrðinga), Hlunnindasafn og Vélasafn. Það er ósk okkar og von að þetta auki aðsókn að safninu.

Myndir af sýningu Þórhalls á Akureyri og af flutningunum í vikunni má sjá í myndaalbúmi.

  • 1

Bátasafn Breiðafjarðar

Nafn:

Bátasafn Breiðafjarðar

Staðsetning:

Reykhólar

Tenglar

Flettingar í dag: 236
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 2983
Gestir í gær: 510
Samtals flettingar: 791883
Samtals gestir: 74539
Tölur uppfærðar: 8.10.2024 14:14:35

Gestir

free counters