Bátasmíði.is

Færslur: 2022 September

30.09.2022 12:37

Bátasmíðanámskeið á Sigló

NÁMSKEIÐ: Bátavernd og viðgerð gamalla trébáta
Staðsetning: Gamli Slippurinn, Siglufirði
Tími: 10. – 14. október 2022
Fjöldi: 7 nemendur að hámarki
Verð: Ekkert námskeiðsgjald. Uppihald á eigin kostnað.
Umsóknarfrestur: 30. september 2022
Skráning: [email protected]

Síldarminjasafn Íslands stendur fyrir námskeiði um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta vikuna
10. – 14. október nk. Námskeiðið er ætlað iðnnemum, safnmönnum og öðrum áhugamönnum um bátavernd. Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður og heiðursiðnaðarmaður ársins 2020 sér um kennslu en Hafliði hefur áralangra reynslu af nýsmíði trébáta sem og viðgerðum gamalla. Sambærileg námskeið hafa farið fram á vegum safnsins síðustu ár og tekist afar vel til.
Í upphafi námskeiðs fer fram leiðsögn um það hvernig ástand gamals báts skal metið og í framhaldinu verður hafist handa við verklega kennslu. Námskeiðið fer fram með þeim hætti að unnið er alla daga, frá mánudegi til föstudags, frá 8:00 – 16:00 síðdegis. Nemendur taki fullan þátt í smíði og annarri vinnu undir handleiðslu kennara.

Unnið verður að viðgerð tveggja báta sem varðveittir eru í Gamla Slippnum sem er kjörinn vettvangur til námskeiðshalds, en um er að ræða verkstæði frá árinu 1934, sem komst í eigu Síldarminjasafnsins árið 2011. Þar er að finna gömul verkfæri og trésmíðavélar til bátasmíða sem nemendur notast við á meðan námskeiðinu stendur. Sem dæmi má nefna stóran amerískan þykktarhefil og bandsög sem eru orðin hundrað ára gömul, og enn í notkun.

Meðal markmiða Síldarminjasafnsins er að standa vörð um forna þekkingu á smíði opinna tréskipa á Íslandi og er námskeiðið skipulagt í samræmi við samning safnsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Námskeið sem þessi hafa verið haldin árlega frá árinu 2016 en að auki voru haldin námskeið á árunum 2009 – 2012 og má rekja upphaf þeirra til samstarfsverkefnis Síldarminjasafnsins við Bátaverndarmiðstöðina í Gratangen í Norður Noregi.

Alla jafna hafa námskeiðin verið bæði vel sótt og vel heppnuð. Nemendur fá tækifæri til að vinna með höndunum að viðgerðum súðbyrtra báta og fá með þeim hætti góða tilfinningu fyrir viðfangsefninu. Einn nemanda á bátasmíðanámskeiði haustið 2021 gaf námskeiðinu afar góða umsögn og sagði: "Á þessu námskeiði var unnið með höndunum undir leiðsögn meistara, hans Hafliða, og lærlings hans Einars. Einstöku sinnum sækir maður námskeið eða vinnur skólaverkefni sem kennir manni meira en heil önn í hefðbundnu námi. Þetta var einmitt svoleiðis. Takk kærlega fyrir mig!"

 

  • 1

Bátasafn Breiðafjarðar

Nafn:

Bátasafn Breiðafjarðar

Staðsetning:

Reykhólar

Tenglar

Flettingar í dag: 220
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 2983
Gestir í gær: 510
Samtals flettingar: 791867
Samtals gestir: 74538
Tölur uppfærðar: 8.10.2024 13:43:16

Gestir

free counters