Bátasmíði.is |
|
Færslur: 2019 Nóvember23.11.2019 10:36Ólafur (Skagfjörð) SH 147Saga Ólafs. Báturinn er smíðaður
árið 1885 í Bjarneyjum. Hvergi í skráðum heimildum er smiður bátsins nefndur en
ekki er öðrum til að dreifa en Bergsveini Ólafssyni (1839-1899). Bergsveinn var
bóndi (1870-1899) og skipasmiður í Bænum í Bjarneyjum og mikill afkastamaður á
því sviði. Ólafur
er skráður fyrst í skipaskrá 20.11.1908. Þar eru þessar upplýsingar skráðar: Nafn:
Ólafur, Umdæmisnúmer: SH 147, Gerð: Árabátur 8 árar, áttæringur, Veiðarfæri:
Lóðir, Stærð: Brl. 2,54 Lengd 24 fet (8 m), Breidd 6 fet (2 m), Dýpt 3
fet (1 m), Smíðastaður og ár: Bjarneyjar 1885, Efni: Fura, Áhöfn:
9 menn, Eigandi: Kristrún Eyjólfsdóttir, ekkja, Sandi (Hellissandi),
Formaður: Sigurður Þorsteinsson, tómtshúsmaður, Sandi. Kristrún
Eyjólfsdóttir (1838-1922), sem er eigandi bátsins við skráninguna 1908, var
laundóttir Eyjólfs "Eyjajarls" Einarssonar (1784-1865) í Svefneyjum. Maður
Kristrúnar var Þorsteinn Jónsson (1838-1873) og bjuggu þau frá árinu 1863 í
Innstubúð í Bjarneyjum. Þeim búnaðist vel og eignuðust 9 börn. Þau misstu 5
börn í æsku, en 4 komust upp. Þorsteinn maður Kristrúnar lést eftir stutta legu
einungis 34 ára að aldri árið 1873. Eftir lát Þorsteins kom bróðir hans
Sigurður Jónsson (1841-1906) til Kristrúnar, sem ráðsmaður.[1]
Sigurður var nefndur "Stormur" og stundaði róðra undir Jökli á vetrarvertíð.
Þann 20.2.1885 fór Sigurður úr Bjarneyjum með tvo báta áleiðis út á Sand til
róðra. Eggert Þorsteinsson (1864-1898), sonur Kristrúnar, stýrði öðrum bátnum
en Sigurður hinum. Þegar þeir voru komnir út undir Rif hvolfir bátnum, sem
Eggert stýrði, skyndilega. Náðu menn að bjarga Eggerti, en þrír menn drukknuðu.
Eftir slysið gekkst Ólafur Skagfjörð (1851-1887), kaupmaður í Flatey, fyrir
samskotum fyrir nýjum báti fyrir Sigurð, með þeim árangri að Sigurður fékk
nýjan og vandaðan bát[2].
Í þakklætisskyni skýrði Sigurður bátinn, Ólaf Skagfjörð. Móðir
Bergsveins Ólafssonar, sem smíðaði bátinn, var Björg Eyjólfsdóttir (1815-1899)
í Sviðnum, og hann var því systursonur Kristrúnar og nánast jafnaldri hennar og
nágranni í Bjarneyjum. Báturinn
var í daglegu tali nefndur Ólafur og er skráður með því nafni árið 1908 þegar
hann er fyrst skráður. Sigurður réri á Ólafi frá Sandi á vetrarvertíðum. Sonur
Kristrúnar, Sigurður Þorsteinsson (1869-1922), réri með Sigurði frænda sínum á
Ólafi. Um aldamótin flytjast þau Kristrún og Sigurður alfarið út á Hellissand
og setjast að í Hallsbæ og þar deyr Sigurður árið 1906. Pétur
(Maríus Guðlaugur) Guðmundsson (1886-1965) Ártúni á Hellissandi, kaupir bátinn
fyrir 1911. Í Breiðfirzkum sjómönnum er sagt frá sjóferð árið 1911 þegar Pétur
lendir í norðanáhlaupi þegar hann er á bátnum ásamt áhöfn sinni í róðri
framundan Brimnesi sem er utan við Hellissand. Mið þessi eru nefnd "Svaða".
Pétur varð að hætta að draga línuna og hleypa undan veðrinu. Einn af hásetum
Péturs var Sigurður Pétursson sonur Kristrúnar og fékk Pétur Sigurð til að taka
við stjórn bátsins vegna mikillar reynslu hans. Eftir töluverða svaðilför náðu
þeir að lenda í Skarðsvík.[3]
Pétur
lætur endurbyggja bátinn á árunum 1925-27 og þá er sett vél í bátinn. Vélin var
af gerðinni Red Wing, 2 cyl. amerísk bensínvél. Næsta
færsla í skipaskrá er gerð 11.8.1932 og þá lítur skráningin út svona: Nafn:
Ólafur, Umdæmisnúmer: SH 147, Gerð: Opinn vélbátur, Veiðarfæri:
Lóðir, Stærð: Brl. 2,6 Lengd 23,7 fet (7,9 m), Breidd 6 fet (2 m),
Dýpt 3,1 fet (1,03 m), Smíðastaður og ár: Umbyggður á Sandi 1925-1927, Efni:
Fura, Áhöfn: 4 menn, Eigandi: Pétur Guðmundsson, Sandi
(Hellissandi) og Helga Vermundsdóttir Sandi, Formaður: Pétur
Guðmundsson, Sandi. Árið
1940 óskar Haraldur (Jóhann) Guðmundsson (1899-1962) eftir skráningu bátsins þannig að sennilega hefur hann keypt
bátinn um það leiti. Haraldur
réri bátnum frá Krossavík og einnig frá Rifi. Eftir
lát Haraldar 1962 gaf ekkja hans Elín Oddsdóttir (1901-1990) og fjölskylda
Sjóminjasafninu á Hellissandi bátinn. Á
haustmánuðum 2019 hóf Hafliði Aðalsteinsson, skipasmíðameistari og formaður
Bátasafns Breiðafjarðar, endursmíði bátsins. Þess má geta að Bergsveinn
Ólafsson var langalangafi Hafliða. Með Hafliða við endursmíðina eru Eggert
Björnsson bátasmiður og Einar Jóhann Lárusson, trésmiður og nemi í bátasmíði. Ráðgert
er að báturinn verði gerður sjófær. Efnið í kjöl og stefni var
fengið frá Skórækt ríkisins í Þjórsárdal, rúmlega 30 ára greni um 5 m að lengd.
Hafliði telur að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskur viður er notaður við
slíka smíði. Þann 3 júní 2020 afhenti Hafliði Aðalsteinsson bátinn Hjálmari Kristjánssyni útgerðarmanni í Rifi sem kostaði endurgerð bátsins. Myndir í myndaalbúmi. Skrifað af Sigurður Bergsveinsson
|
Eldra efni
Bátasafn Breiðafjarðar Nafn: Bátasafn BreiðafjarðarTölvupóstfang: [email protected]Staðsetning: ReykhólarTenglar
Flettingar í dag: 110 Gestir í dag: 7 Flettingar í gær: 464 Gestir í gær: 47 Samtals flettingar: 766260 Samtals gestir: 72955 Tölur uppfærðar: 20.9.2024 02:55:54 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is