Bátasmíði.is

01.07.2015 11:21

Gott veðurútlit á Bátadögum  

Nú lítur út fyrir að veðrið muni verða mjög gott á laugardaginn.

Við viljum hvetja eigendur súðbyrðinga til að koma og vera með í skemmtilegri siglingu um fagurt umhverfi.

13.04.2015 08:13

Bátadagar á Breiðafirði 3 - 5 júlí 2015


Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR) í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum (BogH), gengst nú fyrir bátahátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í áttunda sinn þann 4 júlí nk. Eru eigendur trébáta hvattir til að mæta með báta sína.

Nú er komið að því að heimsækja fjögur nes; Skálmarnes, Svínanes og Bæjarnes í Múlasveit og Skálanes í Gufudalssveit og þaðan síðan að lokum haldið að Stað á Reykjanesi þaðan sem ferðin hefst.

Saga þessara sveita er samofin sögu byggðar í Breiðafjaðareyjum. Eyjabændur versluðu eldivið (hrís og mó) og fengu að flytja fé til beitar á afréttum í Múla- og Gufudalssveita. Bændur í landi fengu báta frá skipasmiðum í eyjunum og versluðu við kaupmenn í Flatey og sóttu þangað læknisþjónustu o.fl. Flóabáturinn Konráð sigldi áætlunarferðir úr Flatey í Múlasveit.

Enginn bær í Múlasveit er lengur í byggð en hlunnindi eru víða nytjuð. Árið 1986 var síðast skráður íbúi í sveitinni en hún var síðar sameinuð Reykhólahreppi.

Með í för verða menn sem lifðu þá tíma er byggð var bæði í eyjunum og Múlasveit og munu miðla þekkingu sinn í ferðinni.  

Föstudagur 3. Júlí.  Safnast saman.

Ráðgert er að þáttakendur safnast saman á Reykhólum á föstudaginn 3 júlí. Flóð er um kl. 20 um kvöldið og þá er gott að setja bátana niður við höfnina á Stað á Reykjanesi, þaðan sem farið verður í siglinguna daginn eftir.

Laugardagur 4. Júlí..

Á laugardagsmorgun verður haldið frá Stað um kl. 10 en þá er aðeins farið að falla út og við höfum því fallið með okkur. Siglt sem leið liggur að Klauf á Skálmarnesi. Búið var í Skámarnesmúla til 1975. Eftir að hafa skoðað Skálmarnesið verður siglt til að Svínanesi þar sem búið var til 1959. Í litli koti Svínanesseli dvaldi Halldór Kiljan Laxness um tíma þegar hann var að safna efni í Sjálfstætt fólk. Þar voru búskaparhættir líkir því sem verið hafði um aldir og þeim lýsir hann vel í sögunni. Því næst verður siglt yfir að Bæjarnesi en þar var búið til 1962. Frá Bæjarnesi siglum við að Skálanesi þar sem lengi var rekið kaupfélag og bensínafgreiðsla. Á Skálanesi búa hjónin Sveinn Berg Hallgrímsson og Andrea Björnsdóttir. Frá Skálanesi munum við síðan sigla að Stað á Reykjanesi. Háflóð er um kl. 21 um kvöldið þannig að þeir sem vilja geta tekið báta sína upp við ferðalok. Gera má ráð fyrir að ferðin taki um 6-8 klst.  Stefnum síðan á sameiginlegt grill um kvöldið.

Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður, mestu um hvernig siglingarnar verða og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð.

Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð. Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er á Reykhólum og á Stað og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Sjá nánar  á www.visitreykholahreppur.is/. Báta- og hlunnindasýningin verður opin alla dagana. http://visitreykholahreppur.is/page/34165/.

Frekari upplýsingar veita: Harpa Eiríksdóttir, [email protected],  s: 8941011 og

Sigurður Bergsveinsson, [email protected], s: 8939787

19.01.2015 11:15

Námskeið í trébátasmíði

Næsta námskeið í smíði súðbyrtra trébáta verður haldið dagana 6 og 7 mars nk.

Lifandi handverk
Þetta er grunnnámskeið um smíði trébáta. Fjallað er um gerðir trébáta og aðferðir sem notaðar eru við smíði og frágang á þeim. Markmið námskeiðsins er að kenna þátttakendum grundvallaratriði í bátasmíði. Námsefni er m.a. Leiðarvísir að bátasmíði, tveir mynddiskar þar sem fylgst er með smíði báts frá kili að sjósetningu.

Námskeiði er haldið í samvinnu við Iðu fræðslusetur og nánari upplýsingar má finna hér: http://idan.is/oll-namskeid/bygginga-og-mannvirkjagreinar-namskeid


14.11.2014 09:37

Námskeið 31.10-1.11 2014


Þriðja námskeiðið í smíði trébáta á árinu var haldið dagana 31.10 og 1.11 sl. Námskeiði var að þessu sinni haldið í glæsilegu húsnæði Iðu fræðsluseturs (idan.is)  að Vatnagörðum 20 í Reykjavík. Námskeiðin eru haldin í samvinnu Iðu fræðsluseturs og FÁBBR.  Þáttakendur voru 6 og tókst námskeiðið vel. Myndir af námskeiðinu er að finna í myndaalbúmi. Við kennsluna á námskeiðunum er notuð frábær handbók sem Eggert Björnsson á Patreksfirði stjórnarmaður í FÁBBR á mestann heiðurinn af en hann hefur teiknað allar myndirnar í bókina.

19.10.2014 17:21

Námskeið á Akureyri 10-11 okt. 2014Námskeið í smíði trébáta var haldið á Akureyri í samvinnu við Iðu fræðslusetur dagana 10 og 11 okt. sl. Alls sóttu námskeiðið um 10 manns. Við fluttum norður skektuna sem hefur verið notuð við kennsluna sl. námskeið. Nokkur undirbúningur var því nauðsynlegur en það tókst allt vel og veðrið var gott bæði á norður- og suðurleiðinni.

Myndir og myndbönd eru í albúmum og einnig er myndband á Facbook síðu: https://www.facebook.com/pages/B%C3%A1tasm%C3%AD%C3%B0i/1432126470338522?fref=photo

17.07.2014 23:06

Bátadagar á Breiðafirði 2014

Eftir vikufrestun vegna veðurs voru Bátadagar á Breiðafirði haldnir dagana 12. og 13.  júlí sl.

 

Fyrri hluti laugardagsins var nýttur til að sjósetja og prófa bátana sem margir höfðu ekki verið hreyfðir frá síðustu Bátadögum fyrir tveim árum. Bjart var í veðri en nokkuð stíf NA átt. Þegar hálffallið var að um kl. 16 var lagt af stað á 8 bátum undir styrkri leiðsögn heimamanna og siglt um Reykhólaeyjar að Hvalshaushólma þar sem talið er að Grettir og félagar hafi komið að landi með nautið sem Grettir bar síðan á bakinu heim að bæ. Þarna eru merki um naust og fleiri minjar. Síðan var siglt að Nóney sem er afar falleg stuðlabergseyja. Eftir að hafa skoðað Nóney var ferðinni fram haldið í átt að Miðjanesi og siglt að Miðjanesey og síðan með landinu um Staðareyjar og endað í höfninni hjá Stað. Alla leiðina var siglt á mjög grunnu vatni og á fjöru má víða ganga þar sem siglt var. Vindinn herti heldur og var þetta 10-15 m/sek. Það reyndi því aðeins á og vélar í tveim bátanna biluðu smávegis. Nánar má sjá leiðina á meðfylgjandi korti og einnig hér: http://www.sports-tracker.com/#/workout/sberg/627tiv8v6tbue9th

 

Eftir að hafa komið bátunum vel fyrir og tekið þá sem biluðu á land var haldið til Reykhóla. Um kvöldið var sameiginlegt grill í húsnæði Báta- og hlunnindasýningarinnar.

 

Á sunnudag var komið mun betra veður og um kl. 14 var siglt á 5 bátum og byrjað á því að sigla inn á Djúpafjörð og hann skoðaður, síðan var siglt inn í Þorskafjörð að Teigsskógi. Vegna sjávarstöðu var ekki hægt að fara þar í land og var þá siglt yfir að Laugalandi sem er eyðijörð við sunnanverðan Þorskafjörð. Húsráðendur tóku á móti bátafólkinu og sýndu staðhætti en á Laugalandi er heitur hver og er vatn úr honum nýtt til húshitunar og í sundlaug. Að lokum var siglt til Staðar þar sem bátarnir voru teknir á land og menn héldu hver til síns heima eftir vel heppnaða Bátadaga.  

 

Myndir frá Bátadögum 2014 má sjá hér: http://www.batasmidi.is/photoalbums/263672/03.07.2014 17:50

Bátadögum á Breiðafirði frestað um viku

Vegna slæmrar veðurspár næstu daga hefur verið ákveðið að fresta Bátadögum á Breiðafirði um eina viku. Þeir áttu að vera núna á föstudag, laugardag og sunnudag en í staðinn verða þeir dagana 11.-13. júlí. Dagskráin verður hins vegar hin sama að öðru leyti (sjá tengilinn hér fyrir neðan). Þetta er ákveðið með venjulegum fyrirvara um veður - kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða, eins og sagt hefur verið.

18.06.2014 16:24

Bátadagar 5 og 6 júlí 2014Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar (FÁBB) í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum (BogH), gengst nú fyrir bátahátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í sjötta sinn þann 5 og 6 júlí nk. Eru eigendur trébáta hvattir til að mæta með báta sína.

 Föstudagur 4. Júlí.  Safnast saman.

Ráðgert er að þáttakendur safnast saman á Reykhólum á föstudaginn 4 júlí. Góðar aðstæður til gistingar eru á svæðinu. Ef aðstæður leyfa verður möguleiki á að þáttakendur grilli saman á föstudagskvöldinu.

 Laugardagur 5. Júlí. Leikur og alvara í og við Reykhólahöfn.

Á laugardagsmorgun verður mætt í Reykhólahöfn og bátarnir sýndir. Notaðar verða árar, segl og vélar eftir því sem aðstæður leyfa. Sérstaklega verður hugað að yngstu kynslóðinni og henni m.a. kennt/sýnt að róa. Kunnáttumenn verða á svæðinu og kynna mismunandi báta og skýra notkun þeirra við dagleg störf við Breiðafjörð í gegnum aldirnar. Háflóð er um kl. 12:30 á laugardag. Stefnum á sameiginlegt grill um kvöldið.

Sunnudagur 6. Júlí. Sigling í Þorskafjörð.

Á sunnudaginn 6 júlí verður siglt frá Reykhólahöfn um kl. 10:00 og siglt NV með Reykjanesi um Staðareyjar og inn Þorska-, Gufu- og Djúpafjörð og aðstæður skoðaðar, áð verður við Teigsskóg og hann skoðaður, síðan verður siglt til Staðar á Reykjanesi og líkur ferðinni þar. Gera má ráð fyrir að ferðin taki 6-8 klst.   Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá fyrirhugaða siglingaleið. Háflóð er um kl. 13:30 á sunnudag

Báta- og hlunnindasýningin verður opin alla dagana. http://visitreykholahreppur.is/page/34165/

Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður, mestu um hvernig siglingarnar verða og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð. Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð. Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er á Reykhólum og á Stað og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Sjá nánar  á www.visitreykholahreppur.is/

Frekari upplýsingar veita: Harpa Eiríksdóttir, [email protected],  s: 894 1011 og Sigurður Bergsveinsson, [email protected], s: 893 9787


14.03.2014 22:27

Frá námskeiði 7-8 feb.


                                                 Fleiri myndir í albúmi.

13.01.2014 11:55

Korngarðar 5

Faxaflóahafnir hafa lánað Bátasafni Breiðafjarðar aðstöðu í ónotuðu rými í Korngörðum fyrir námskeiðahald í smíði á súðbyrðingum. Þetta er frábær aðstaða og eiga forsvarsmenn Faxaflóahafna heiður skilið fyrir hjálpsemina. 

Næsta námskeið verður haldið 7-8 febrúar nk. 

Þarna eru líka nokkrir aðilar með aðstöðu fyrir súðbyrðinga sína. Jón Páll ljósmyndari leit við um helgina og tók nokkrar myndir sem sjá má hér:


og hér:  

  

21.07.2013 20:32

Teista.

Teista

VIDEO HERE
 
Teista sjósett á sjómannadag 2013.

03.07.2013 10:39

Bátadagar falla niður vegna veðurútlits

Því miður munu Bátadagar 2013 falla niður vegna slæmrar veðurspár.

13.05.2013 19:04

Bátadagar 6-7 júlí 2013

Bátadagar á Breiðafirði 6 og 7 júlí 2013

Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar (FÁBB), gengst nú fyrir bátahátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í sjötta sinn þann 6 og 7 júlí nk.

Dagskráin verður með þeim hætti að þáttakendur safnast saman með báta sína á Reykhólum á föstudaginn 5 júlí. Ef aðstæður leyfa verður möguleiki á sameiginlegu grilli saman á föstudagskvöldinu og þá verði farið yfir leiðarlýsinguna ferðarinnar og fróðleik um það sem fyrir augu mun bera. Laugardaginn 6 júlí verður siglt frá Reykhólahöfn kl. 10:00 og siglt NV með Reykjanesi um Staðareyjar og inn Þorska-, Gufu- og Djúpafjörð og aðstæður skoðaðar. Áð verður við Teigsskóg og hann skoðaður, síðan verður siglt að Stað á Reykjanesi og lýkur ferðinni þar. Sunnudaginn 7. júlí verður farið kl. 10:00 frá Stað og siglt út í Sviðnur og deginum eytt með heimafólki sem fræðir um eyjuna og sögu hennar. Siglt til baka að Stað og eru þar ferðalok. Gera má ráð fyrir að ferðin taki 6-8 klst. hvorn dag.

Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá fyrirhugaða siglingaleið.


Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður mestu um hvernig siglingarnar verða og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð. Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð.

Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

 Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er á Reykhólum og á Stað og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Sjá nánar á www.reykholar.is

Frekari upplýsingar veita: Sigurður Bergsveinsson, [email protected], s: 893 9787 og Hafliði Aðalsteinsson, [email protected],  s: 898 3839Bátasafn Breiðafjarðar

Nafn:

Bátasafn Breiðafjarðar

Staðsetning:

Reykhólar

Tenglar

Flettingar í dag: 6
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 295
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 488753
Samtals gestir: 49407
Tölur uppfærðar: 4.3.2024 00:11:58

Gestir

free counters