19.12.2011 19:05
SÚÐBYRÐINGUR - SAGA BÁTS
Heimildamyndin Súðbyrðingur - saga báts eftir Ásdísi Thoroddsen er komin út á mynddiski.
Fjórir menn taka sér fyrir hendur að smíða bát eftir Staðarskektunni, sem fúnað hefur í grasi í Reykhólasveit. Samhliða því sem nýi báturinn tekur á sig mynd er sögð saga bátasmíða á Norðurlöndum. Byrjað er á kilinum, sem þróaðist frá eintrjáningi steinaldar, og svo þegar báturinn er byrtur er sagt frá skinnbátum bronsaldar og helluristum, fórnum á bátum og mönnum til ókunnra guða, en elsti súðbyrðingurinn sem vitað er um varðveittist á einum slíkum blótstað, sýnd hin glæstu skip víkingaaldar, sýndar myndir frá selveiðimönnum í Eystrasaltinu sem lögðust út á ísinn og sváfu í einkennilega löguðum bátum sínum, og áfram er smíðað, böndin og borðstokkarnir, og þá er komið til Færeyja þar sem keppt er í róðri í nýrri gerð af súðbyrðingum á Ólafsvöku. Að lokum er báturinn klár og seglin saumuð og þá er sjósetning og smiðirnir sigla út á Breiðafjörð, til fortíðar þeirra sjálfra, þar sem súðbyrðingar voru smíðaðir og notaðir - heima.
Báturinn er trúarlegt tákn. Í þessum ,,báti" sem kvikmyndin er, rúmast margt, svo sem handbragð, heiðindómur, verslunarsaga, veiði, dauði og hátíðir. Í gegnum báta og skip tengjast hættir og saga þeirra þjóða sem búa á Norðurlöndum.
Ólafur H. Torfason fór lofsamlegum orðum um Súðbyrðing - sögu báts, gaf fjórar stjörnur, fullt hús.
Norska sjónvarpið (NRK) og það færeyska, Kringvarp, keyptu myndina og búið er að sýna hana.
Kvikmyndin er textuð á ensku, þýsku, frönsku, sænsku, norsku, færeysku, dönsku og íslensku, og svo er hægt að hafa hana án texta. Eintakið kostar kr. 3.000,- með vsk að viðbættum sendingarkostnaði.