Bátasmíði.is

05.05.2016 09:00

Nýr súðbyrðingur sjósettur


Það gerist ekki á hverjum degi að sjósettur er nýbyggður súðbyrðingur.

Ráðgert er að sjósetja nýjan súðbyrtan bát í Kópavogshöfn á laugardaginn 7. maí nk.

Byggingasaga þessa báts er um margt sérstök.

Félag áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR) hefur staði fyrir námskeiðahaldi í gerð súðbyrðinga í samvinnu við Iðu fræðslusetur. 

Tilgangur námskeiðanna er að viðhalda þekkingu í gerð og vinnubrögðum við smíði slíkra báta sem hafa verið smíðaðir allt frá landnámi og byggja á smíðahefð víkingaskipanna. 

Hafliði Már Aðalsteinsson skipasmíðameistari frá Hvallátrum á Breiðafirði og Eggert Björnsson bátasmiður hafa annast kennslu á námskeiðunum.

Í byrjun árs 2012 hannaði Hafliði og teiknaði bát sem er byggður á hefðbundnum breiðfiskum hlunnindabátum en aðeins breiðari og dýpri en þeir voru.  

Hafliði notaði síðan hönnunina á 6 námskeiðum sem haldin voru frá því í febrúar árið 2012 og fram í mars 2013. Alls tóku um 50 menn þátt í námskeiðunum. Lagður var kjölur að bátnum og hann síðan fullbyrtur og sett í hann 4 bönd. 

Síðan hefur ekkert verið unnið í bátnum þangað til í vetur (2016) að Hafliði og Eggert tóku sig til og kláruðu að smíða bátinn og setja niður vélbúnað og fullgera hann.

Sturla Jóhannsson frá Öxney á Breiðafirði keypti bátinn og hefur gefið honum nafnið Öxney. Bátinn hyggst Sturla nota við hefðbundnar hlunnindanytjar við Breiðafjörð.

Öxney er 5,85 m á lengd, 2,02 m á breidd og 0,93 m á dýpt. Í honum er 30 hestafla Yanmar vél.
Báturin er smíðaður úr furu og eik og er með utanáliggjandi stýri.

01.03.2016 22:00

Í víking til Noregs


Óskað hefur verið eftir því að Hafliði Aðalsteinsson skipasmíðameistari og formaður FÁBBR komi til Noregs og smíði dæmigerðan breiðfirskan bát, fjögurra manna far.

 

Vinfastur sem smíðaður var af félagsmönnum FÁBBR  er slíkur bátur, sjá mynd.

 

Búið er að fjármagna verkefnið og stefnt að því að þetta geti orðið að veruleika vorið 2017.


Þetta er mikill heiður fyrir Hafliða og óskum við honum til hamingju með þetta.


Hanus Jensen, skipasmiður frá Færeyjum, smíðað færeyskan bát í Noregi árið 2014 og nú er komið að Hafliða.

 

Sjá hér frétt frá Noregi.

 

Hurra! Norsk Kulturråd har bevilget kr 120.000 til museet for å få båtbygger Haflidi Adalsteinsson fra Island hit til museet for å bygge en tradisjonsbåt fra Island. https://www.facebook.com/kystensarvmist/photos/a.1442572019297681.1073741828.1442567939298089/1765586946996185/?type=3&theater

26.02.2016 18:36

Námskeið 26-27 febrúar 2016


Fyrsta námskeiðið í smíði trébáta á árinu eru nú (26-27 febrúar 2016) haldið húsnæði Iðu fræðsluseturs (idan.is)  að Vatnagörðum 20 í Reykjavík en námskeiðið er haldið í samvinnu Iðu fræðsluseturs og FÁBBR. Þáttakendur að þessu sinni eru 8. Kennarar eru sem fyrr Hafliði Aðalsteinsson skipasmíðameistari og Eggert Björnsson bátasmiður.

Verkefnin að þessu sinni er kennsla í viðgerð á gömlum bát og frágangur á nýjum bát.

Eldri báturinn er bátur sem Valdimar Ólafsson (1906-1939) í Hvallátrum (afabróðir Hafliða) smíðaði árið 1934 fyrir Júlíus Sigurðsson(1876-1961) á Litlanesi á Barðaströnd og var báturinn yfirleitt kallaður Litlanesbáturinn og var hlunnindabátur á Litlanesi í áratugi. Hafliði er að vinna að endurbyggingu bátsins fyrir Hilmi Bjarnason stjórnarmann í FÁBBR.

Sigurjón Árnason (1923-2010) skipasmiður í Flatey, afi Hilmis, smíðaði á árunum um og eftir 1950 fjóra báta eftir Litlanesbátnum; Andvara, Bjarma, Hring og Múlabátinn. Þessir bátar eru allir til í dag og eru allir nema Andvari í mjög góðu ástandi.

Myndir frá námskeiðinu eru í myndaalbúmi. http://www.batasmidi.is/photoalbums/277391/

26.12.2015 18:03

Vélasafnið - fróðleikur


Eins og fram koma hér á síðunni í september þá bættist vélasafn Þórhalls Matthíassonar frá Litlabæ í Skötufirði við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum.

Nú hefur safnið verið skrá eftir upplýsingum frá Þórhalli.

Ýmislegt fróðlegt kemur í ljós við skráningu safnsins.

Vélarnar eru alls 102 af 42 tegundum og eru framleiddar í 8 löndum. Ekki er vitað um aldur allra vélanna en af þeim sem vitað er um er elsta vélin frá 1926 og sú yngsta frá 2001. Notkun vélanna hefur verið mjög fjölbreytt en um 80% eru báta- eða ljósavélar. Vélarnar koma víða að, rúmlega helmingur er af Norðurlandi og um þriðjungur af Vestjörðum, Breiðafirði og Vesturlandi.

Í haust var unnið að því að gera húsnæði tilbúið fyrir sýninguna og gekk það vel og í vor verður safnið sett upp ásamt merkingum.

Við viljum hvetja alla áhugamenn að gera sér ferð á Reykhóla næsta sumar og skoða þetta stór merka safn.

Hér á eftir fylgja nokkrar töflur fyrir áhugasama að skoða betur.

Fjöldi véla og framleiðsluland
10 Sabb norsk
10 Solo sænsk
8 Albin sænsk 
7 Briggs & Stratton usa
7 Stuart ensk
6 Volvo Penta sænsk
4 Skandia sænsk
4 Hatz þýsk
3 Bukh dönsk
3 Göta sænsk
3 Sleipner norsk
2 Lister ensk
2 Marna norsk
2 Penta Göteborg sænsk
2 Petter ensk
2 Wisconsin usa
2 VM Ítölsk
1 AB Electrolux sænsk
1 Bolinder sænsk
1 Drott sænsk
1 Ellwe sænsk
1 Faryman þýsk
1 FM norsk
1 Ford usa
1 Ford Mermid ensk
1 Gardner þýsk
1 Göta eða Solo sænsk 
1 Kröve norsk
1 Kvikk norsk
1 Köhler usa
1 Lombardini ítölsk
1 Neptune usa
1 Q.M. norsk
1 Royal Enfield ensk
1 Röston ensk
1 Skrúfa frá Göta vél sænsk
1 Startmótor rússneskur  
1 Stord norsk
1 Universal usa
1 Victor ensk
1 Villers ensk
1 Witte usa
102 42  

Uppruni véla
Norðurland 57
Vestfirðir 25
Breiðafjörður 7
Vesturland 6
Austfirðir 5
Suðurland 2
  102

Bátavél 69
Dæluvél 1
Fjölnotavél 13
Kranavél 1
Ljósavél 9
Rafstöð 1
Sláttuvél 1
Skrúfa 1
Spil 1
Startvél 1
Súgþurrkunarvél 2
Utanborðsvél 2
Fjölnotavélar t.d.  
 - Mjaltavélar  
 - Hrærivélar  
 - Sláttuvélar   
 - o.fl.  
  10218.10.2015 14:31

Námskeið í smíði súðbyrðings

Næsta námskeið verður 6-7 nóv. 2015

Lifandi handverk - Iðan í samvinnu við Bátasafn Breiðafjarðar. 

Þetta er grunnnámskeið um smíði trébáta.
Fjallað er um gerðir trébáta og aðferðir sem notaðar eru við smíði og frágang á þeim. 
Markmið námskeiðsins er að kenna þátttakendum grundvallaratriði í bátasmíði.

Námsefni er m.a.:
Leiðarvísir að bátasmíði, tveir mynddiskar þar sem fylgst er með smíði báts frá kili að sjósetningu. 

Námsmat: 100% mæting.

Námskeiðið er haldið í samvinnu við Iðan fræðslusetur, Vatnagörðum 20.

Sjá nánar á heimasíðu Iðu: 
http://idan.is/oll-namskeid/bygginga-og-mannvirkjagreinar-namskeid

04.10.2015 10:33

Draupnir BA kominn á ReykhólaÁ föstudaginn 2 október 2015 var vélbáturinn Draupnir fluttur frá Safnasvæðinu á Akranesi, þar sem hann hefur verið geymdur s.l. 20 ár, til dvalar hjá Bátasafni Breiðafjarðar á Reykhólum.

Draupnir var smíðaður af Aðalsteini Eyjólfi Aðalsteinssyni (1923-2014) skipasmið í Hvallátrum á Breiðafirði og var stærsti bátur sem Aðalsteinn smíðaði, sjósettur árið 1960.

Draupnir er 10,67 m langur, 3,55 m á breidd og 1,52 m djúpur og 10,41 brl. Upphaflega var í honum 20 hp Lister vél en síðar var sett í hann 50 hp Perkings vél og er hún í honum í dag.

Aðalsteinn smíðaði bátinn fyrir sig og var hann heimils farartæki fyrir Hvallátur og notaður til að flytja fólk og varning.

Aðalsteinn smíðaði einnig árið 1962, Farsæl fyrir nágranna sinn Nikulás Jensson í Svefneyjum. Farsæll er aðeins minni eða rúmar 7 brl.

Draupnir og Farsæll bera smíðakunnáttu Aðalsteins gott merki og voru lang stærstir og flottastir eyjabátar á sinni tíð.

Draupni var búinn staður við hlið Farsæls við hús Báta- og Hlunnindasýningarinnar á Reykhólum. Þar hvílir einnig flutningaprammi sem Aðalsteinn smíðaði árið 1958.

Myndir af flutningunum eru í myndaalbúmum.

29.09.2015 09:01

Sindri afhentur Bátasafni BreiðafjarðarSindri afhentur Bátasafni Breiðafjarðar til eignar og varðveislu.

Sindri var smíðaður árið 1936 af Valdimar Ólafssyni í Hvallátrum fyrir Jón Þórðarson og Snæbjörn Jónsson á Stað á Reykjanesi. Á þessum tíma var tvíbýli á Stað en síðar(1949) byggði Jón nýbýlið Árbæ .

Sindri er smíðaður úr eik og furu og skráður 2,5 brl. Var upphaflega með 5 ha Skandia vél, árið 1946 var sett í bátinn 8 ha. Skandia vél, 1983 var sett í bátinn 8 ha Sabb vél og 1995 10 ha Sabb vél sem er í bátnum í dag.

Sindri var notaður af Staðar og Árbæjar bændum í áratugi við hlunnindanytjar og flutninga á vörum og fólki.

Sindri hefur verið geymdur í uppsátri á Vesturnesi við höfnina á Stað.

Árið 1962 kaupir Guðmundur Theódórsson á Laugalandi við Þorskafjörð bátinn og notar hann við hlunnindanytjar o.fl.  Árið 1990 gerði Guðmundur bátinn upp og hefur síðan haldið honum mjög vel við.

Á Bátadögum 2015 sigldi Guðmundur ásamt gestum á Sindra í hópi báta í blíðu veðri. Að því loknu afhenti Guðmundur Bátasafninu Sindra til eignar og varðveislu.

Sindri var hafður til sýnis á Báta- og hlunnindasýningunn fram á haust en nú hefur verið gengið frá honum til vetrardvalar í naustinu þar sem hann hefur verið geymdur undanfarin 80 ár.

Fleiri myndir af Sindra eru í myndaalbúmum.

20.09.2015 12:00

Bátavélasafn Þórhalls Matthíassonar verður hluti af Báta- og hlunnindasýningunni á ReykhólumÞórhallur Matthíasson sem er Vestfirðingur að uppruna, alinn upp í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi, og búsettur á Akureyri hefur safnað og gert upp bátavélar í tugir ára. Árið 2007 opnaði Þórhallur sýningu á safninu á Akureyri.

Að undanförnu hefur Þórhallur verið að leita að framtíðarstað fyrir safn sitt. Fyrir stuttu komust á viðræður forsvarsmanna Bátasafns Breiðafjarðar og Þórhalls um hvort möguleiki væri á að safn Þórhalls myndi geta átt sér framtíðarstað á Reykhólum.

Eftir að við höfðum ráðfært okkur við félaga okkar hjá Báta- og hlunnindasýningunni ehf. (BogH) var ákveðið að þiggja þessa rausnarlegu gjöf Þórhalls og búa henni veglegan stað í kjallara húsnæðis BogH.

Safnið var síðan í framhaldinu flutt frá Akureyri í vikunni (16-17 sept.) til Reykhóla og þurfti tvo stóra flutningabíla undir safnið sem telur um 150 vélar og annan búnað sem tengist vélum í bátum. Margar vélanna eru gangfærar. Safninu var komið fyrir til bráðabirgða innan um báta og aðra sýningarmuni í BogH.   

Veturinn verður notaður til að undirbúa húsnæðið, leggja í gólf, mála og koma rafmagni og öðru í gott horf.

Næst vor verður sýningin svo sett upp í samvinnu við Þórhall og verður hún með hans nafni. Þórhallur hefur haldið skrá yfir alla munina og er saga þeirra flestar einnig aðgengileg.

Það má því segja að næst vor samanstandi  BogH í raun af 3 sýningum;  Bátasafn (súðbyrðinga), Hlunnindasafn og Vélasafn. Það er ósk okkar og von að þetta auki aðsókn að safninu.

Myndir af sýningu Þórhalls á Akureyri og af flutningunum í vikunni má sjá í myndaalbúmi.

13.07.2015 19:11

Að loknum Bátadögum 2015

Bátadagar 2015 tókust með miklum ágætum og átti gott veður sinn þátt í því.

Alls tóku sex bátar þátt að þessu sinni, Baldur, Bjargfýlingur, Gustur, Kári, Ólafur og Sindri og þáttakendur voru um 25 talsins.

Við sem að þessari hátíð súðbyrðingsins stöndum hefðum kosið að fleiri hefðu komið með báta sína og siglt með okkur en það er töluverð fyrirhöfn að koma með bátana og við höfum skilning á því að svo varð ekki að þessu sinni. Vonandi verða fleiri næst.

Við hjá FÁBBR og Báta- og hlunnindasýningunni viljum þakka öllum þeim sem hjálpuð okkur að gera þessa hátíð jafn góða og raun bar vitni.

Mikið hefur birst af myndum á vefnum og umfjöllun um Bátadagana og eru krækjur á það hér að neðan.

Reykhólavefurinn: 

http://reykholar.is/frettir/Einstok_blida_a_Batadogum_2015_-_urmull_mynda/

http://reykholar.is/myndasofn/myndir/179/

Báta- og hlunnindasýningin:

https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=666927983441856&id=313189945482330

Goddur:

https://www.facebook.com/goddur55/media_set?set=a.10153479256586907.1073741935.537701906&type=3&pnref=story

Haukur Sigvaldason:

https://www.facebook.com/shaukur/media_set?set=a.10205641638138283.1073742002.1173871807&type=3

https://www.facebook.com/shaukur/media_set?set=a.10205667421462850.1073742003.1173871807&type=3&pnref=story

01.07.2015 11:21

Gott veðurútlit á Bátadögum  

Nú lítur út fyrir að veðrið muni verða mjög gott á laugardaginn.

Við viljum hvetja eigendur súðbyrðinga til að koma og vera með í skemmtilegri siglingu um fagurt umhverfi.

13.04.2015 08:13

Bátadagar á Breiðafirði 3 - 5 júlí 2015


Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR) í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum (BogH), gengst nú fyrir bátahátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í áttunda sinn þann 4 júlí nk. Eru eigendur trébáta hvattir til að mæta með báta sína.

Nú er komið að því að heimsækja fjögur nes; Skálmarnes, Svínanes og Bæjarnes í Múlasveit og Skálanes í Gufudalssveit og þaðan síðan að lokum haldið að Stað á Reykjanesi þaðan sem ferðin hefst.

Saga þessara sveita er samofin sögu byggðar í Breiðafjaðareyjum. Eyjabændur versluðu eldivið (hrís og mó) og fengu að flytja fé til beitar á afréttum í Múla- og Gufudalssveita. Bændur í landi fengu báta frá skipasmiðum í eyjunum og versluðu við kaupmenn í Flatey og sóttu þangað læknisþjónustu o.fl. Flóabáturinn Konráð sigldi áætlunarferðir úr Flatey í Múlasveit.

Enginn bær í Múlasveit er lengur í byggð en hlunnindi eru víða nytjuð. Árið 1986 var síðast skráður íbúi í sveitinni en hún var síðar sameinuð Reykhólahreppi.

Með í för verða menn sem lifðu þá tíma er byggð var bæði í eyjunum og Múlasveit og munu miðla þekkingu sinn í ferðinni.  

Föstudagur 3. Júlí.  Safnast saman.

Ráðgert er að þáttakendur safnast saman á Reykhólum á föstudaginn 3 júlí. Flóð er um kl. 20 um kvöldið og þá er gott að setja bátana niður við höfnina á Stað á Reykjanesi, þaðan sem farið verður í siglinguna daginn eftir.

Laugardagur 4. Júlí..

Á laugardagsmorgun verður haldið frá Stað um kl. 10 en þá er aðeins farið að falla út og við höfum því fallið með okkur. Siglt sem leið liggur að Klauf á Skálmarnesi. Búið var í Skámarnesmúla til 1975. Eftir að hafa skoðað Skálmarnesið verður siglt til að Svínanesi þar sem búið var til 1959. Í litli koti Svínanesseli dvaldi Halldór Kiljan Laxness um tíma þegar hann var að safna efni í Sjálfstætt fólk. Þar voru búskaparhættir líkir því sem verið hafði um aldir og þeim lýsir hann vel í sögunni. Því næst verður siglt yfir að Bæjarnesi en þar var búið til 1962. Frá Bæjarnesi siglum við að Skálanesi þar sem lengi var rekið kaupfélag og bensínafgreiðsla. Á Skálanesi búa hjónin Sveinn Berg Hallgrímsson og Andrea Björnsdóttir. Frá Skálanesi munum við síðan sigla að Stað á Reykjanesi. Háflóð er um kl. 21 um kvöldið þannig að þeir sem vilja geta tekið báta sína upp við ferðalok. Gera má ráð fyrir að ferðin taki um 6-8 klst.  Stefnum síðan á sameiginlegt grill um kvöldið.

Að sjálfsögðu ráða aðstæður, sjávarföll og veður, mestu um hvernig siglingarnar verða og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð.

Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð. Allir súðbyrðingar er velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi.

Mjög góð aðstaða fyrir minni báta er á Reykhólum og á Stað og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Sjá nánar  á www.visitreykholahreppur.is/. Báta- og hlunnindasýningin verður opin alla dagana. http://visitreykholahreppur.is/page/34165/.

Frekari upplýsingar veita: Harpa Eiríksdóttir, info@reykholar.is,  s: 8941011 og

Sigurður Bergsveinsson, sberg@isholf.is, s: 8939787

19.01.2015 11:15

Námskeið í trébátasmíði

Næsta námskeið í smíði súðbyrtra trébáta verður haldið dagana 6 og 7 mars nk.

Lifandi handverk
Þetta er grunnnámskeið um smíði trébáta. Fjallað er um gerðir trébáta og aðferðir sem notaðar eru við smíði og frágang á þeim. Markmið námskeiðsins er að kenna þátttakendum grundvallaratriði í bátasmíði. Námsefni er m.a. Leiðarvísir að bátasmíði, tveir mynddiskar þar sem fylgst er með smíði báts frá kili að sjósetningu.

Námskeiði er haldið í samvinnu við Iðu fræðslusetur og nánari upplýsingar má finna hér: http://idan.is/oll-namskeid/bygginga-og-mannvirkjagreinar-namskeid


14.11.2014 09:37

Námskeið 31.10-1.11 2014


Þriðja námskeiðið í smíði trébáta á árinu var haldið dagana 31.10 og 1.11 sl. Námskeiði var að þessu sinni haldið í glæsilegu húsnæði Iðu fræðsluseturs (idan.is)  að Vatnagörðum 20 í Reykjavík. Námskeiðin eru haldin í samvinnu Iðu fræðsluseturs og FÁBBR.  Þáttakendur voru 6 og tókst námskeiðið vel. Myndir af námskeiðinu er að finna í myndaalbúmi. Við kennsluna á námskeiðunum er notuð frábær handbók sem Eggert Björnsson á Patreksfirði stjórnarmaður í FÁBBR á mestann heiðurinn af en hann hefur teiknað allar myndirnar í bókina.

19.10.2014 17:21

Námskeið á Akureyri 10-11 okt. 2014Námskeið í smíði trébáta var haldið á Akureyri í samvinnu við Iðu fræðslusetur dagana 10 og 11 okt. sl. Alls sóttu námskeiðið um 10 manns. Við fluttum norður skektuna sem hefur verið notuð við kennsluna sl. námskeið. Nokkur undirbúningur var því nauðsynlegur en það tókst allt vel og veðrið var gott bæði á norður- og suðurleiðinni.

Myndir og myndbönd eru í albúmum og einnig er myndband á Facbook síðu: https://www.facebook.com/pages/B%C3%A1tasm%C3%AD%C3%B0i/1432126470338522?fref=photo

17.07.2014 23:06

Bátadagar á Breiðafirði 2014

Eftir vikufrestun vegna veðurs voru Bátadagar á Breiðafirði haldnir dagana 12. og 13.  júlí sl.

 

Fyrri hluti laugardagsins var nýttur til að sjósetja og prófa bátana sem margir höfðu ekki verið hreyfðir frá síðustu Bátadögum fyrir tveim árum. Bjart var í veðri en nokkuð stíf NA átt. Þegar hálffallið var að um kl. 16 var lagt af stað á 8 bátum undir styrkri leiðsögn heimamanna og siglt um Reykhólaeyjar að Hvalshaushólma þar sem talið er að Grettir og félagar hafi komið að landi með nautið sem Grettir bar síðan á bakinu heim að bæ. Þarna eru merki um naust og fleiri minjar. Síðan var siglt að Nóney sem er afar falleg stuðlabergseyja. Eftir að hafa skoðað Nóney var ferðinni fram haldið í átt að Miðjanesi og siglt að Miðjanesey og síðan með landinu um Staðareyjar og endað í höfninni hjá Stað. Alla leiðina var siglt á mjög grunnu vatni og á fjöru má víða ganga þar sem siglt var. Vindinn herti heldur og var þetta 10-15 m/sek. Það reyndi því aðeins á og vélar í tveim bátanna biluðu smávegis. Nánar má sjá leiðina á meðfylgjandi korti og einnig hér: http://www.sports-tracker.com/#/workout/sberg/627tiv8v6tbue9th

 

Eftir að hafa komið bátunum vel fyrir og tekið þá sem biluðu á land var haldið til Reykhóla. Um kvöldið var sameiginlegt grill í húsnæði Báta- og hlunnindasýningarinnar.

 

Á sunnudag var komið mun betra veður og um kl. 14 var siglt á 5 bátum og byrjað á því að sigla inn á Djúpafjörð og hann skoðaður, síðan var siglt inn í Þorskafjörð að Teigsskógi. Vegna sjávarstöðu var ekki hægt að fara þar í land og var þá siglt yfir að Laugalandi sem er eyðijörð við sunnanverðan Þorskafjörð. Húsráðendur tóku á móti bátafólkinu og sýndu staðhætti en á Laugalandi er heitur hver og er vatn úr honum nýtt til húshitunar og í sundlaug. Að lokum var siglt til Staðar þar sem bátarnir voru teknir á land og menn héldu hver til síns heima eftir vel heppnaða Bátadaga.  

 

Myndir frá Bátadögum 2014 má sjá hér: http://www.batasmidi.is/photoalbums/263672/Bátasafn Breiðafjarðar

Nafn:

Bátasafn Breiðafjarðar

Staðsetning:

Reykhólar

Tenglar

Flettingar í dag: 990
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 509
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 492695
Samtals gestir: 69053
Tölur uppfærðar: 29.5.2016 13:15:54

Gestir

free counters